Jenis av Rana

Jenis av Rana

Jenis av Rana (f. 7. janúar 1953 í Trongisvágur) er færeyskur læknir og stjórnmálamaður. Hann er formaður Miðflokksins í Færeyjum.

Hann útskrifaðist sem læknir árið 1983 og hefur síðan þá starfað við lækningar í Þórshöfn.

Hann var bæjarráðsmaður í Þórshöfn á árunum 1993-1996. Hann hefur gegnt þingmennsku fyrir Miðflokkinn á Lögþingi Færeyja frá árinu 1994. Fyrir stofnun Miðflokksins árið 1992 var hann meðlimur í Kristilega Fólkaflokknum.

Jenis av Rana hefur verið lýst sem fordómafullum bókstafstrúarmanni.[1] Hann hefur í gegnum tíðina skrifað reglulega í færeyska fjölmiðla um samkynhneigð en hann hefur það á stefnuskrá sinni að Færeyjum verði stjórnað eftir „lögum Biblíunnar.“[1] Hann hefur verið sakaður um að vera haldinn fordómum gagnvart samkynhneigðum en samkynhneigð er enn viðkvæmt umræðuefni meðal Færeyinga. [1]

Jenis av Rana vakti mikla athygli á Íslandi í byrjun september 2010 þegar hann neitaði að sitja veislu með Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra Íslands, og eiginkonu hennar, Jónínu Leósdóttur, vegna samkynhneigðar þeirra. Veislan var haldin í tilefni af heimsókn Jóhönnu til Færeyja, en Jenis taldi heimsókn hennar „hreina ögrun“ þar sem hún væri „ekki í samræmi við heilaga ritningu.“ Honum hafi því ekki dottið í hug að sitja veisluna.[2][3]

Árið 2022 var hann rekinn úr embætti menntamálaráðherra fyrir ummæli um sambýli samkynhneigðra sem lögmaður Færeyja sagði að samræmdust ekki færeyskum gildum.[4]

  1. 1,0 1,1 1,2 „Fordómafulli færeyski þingmaðurinn“. Dv.is. 7. september 2010.
  2. „Neitar að sitja veislu með Jóhönnu“. Morgunblaðið. 6. september 2010.
  3. „Situr ekki veislu með Jóhönnu“. Ruv.is. 6. september 2010.
  4. Jenis av Rana rekinn af ráðherrastóli RÚV, skoðað 8/11 2022

From Wikipedia, the free encyclopedia · View on Wikipedia

Developed by razib.in